Markþjálfun hjá Tinnu

Tímarnir eru bæði í boði í persónu sem og í myndspjalli gegnum netið.

Nándar- & kynlífsmarkþjálfun

Í nándar- & kynlífsmarkþjálfun færðu öruggt rými og stuðning til að skoða kynveruna þína og samband þitt við nánd og kynlíf. Þessi markþjálfun er sómatísk (líkamsmiðuð) þar sem áhersla er lögð á heildræna nálgun á líkama, huga og sál. Tímarnir byggjast upp á samtali og fjölbreyttum æfingum sem t.d. byggja á núvitund, samskiptum, öndun, hlustun á líkamann, viðbrögðum, mynstrum og fleiru. Ólíkt hefðbundinni samtalsmeðferð er líkaminn virkur þátttakandi í ferlinu þegar unnið er með sómatískri nálgun. Hver tími er sérsniðin að einstaklingnum og hans þörfum. 

Þessi nálgun getur verið sérstaklega gagnleg ef viðkomandi upplifir erfiðleika við að breyta venjum, finnst hann vera ,,fastur” eða ótengdur sjálfum sér. Með því að læra og auka hlustun og meðvitund um hvað líkaminn er að reyna að segja, getur losnað um streitu, viðkomandi byggt upp seiglu og tengst sjálfum sér og öðrum á dýpri hátt. 

Hvort sem þú ert að vinna í áskorunum í lífi þínu eða vilt einfaldlega upplifa meiri nánd, lífskraft og lífsgleði, þá fylgja fylgja þessari sómatísku markþjálfun hagnýt verkfæri og innsýn til að hjálpa þér að blómstra, auka lífsgæði og unað.

"Sexuality is the rhythm of life,

the primal energy that fuels our drive to live fully."

Fyrir hverja?

Það er misjafnt hver ásetningur hvers og eins er í vinnu með
nándar- & kynlífsmarkþjálfa en sem dæmi má nefna:

  • Lág kynhvöt

  • Brátt sáðlát

  • Aukinn unaður og ánægja í kynlífi

  • Snerting

  • Nánd

  • Sjálfsfróun

  • Samskipti

  • Valdefling kynveru

  • Fantasíur

  • Líkamsímynd 

  • Langanir & mörk

  • Frammistöðukvíði

  • og fleira…

Hvort sem þú vilt yfirstíga hindranir, takast á við breytingar eða einfaldlega enduruppgötva hvað það þýðir að finna lífskraftinn í líkamanum þínum, þá mætir þessi nálgun af markþjálfun þér, þar sem þú ert. Áherslan er á að skapa öruggt og stuðningsríkt rými sem er sniðið að þínum einstöku þörfum.

Hver er ég?

Ég er útskrifaður nándar- og kynlífsmarkþjálfi (e. sexological intimacy coach) og hef einlægan áhuga á að styðja einstaklinga við að dýpka tengslin við líkama sinn, lífskraft og sjálfsmynd. Ég notast við líkamsmiðaða (e. somatic), áfalla-upplýsta nálgun þar sem ég leitast við að skapa öruggt og styðjandi rými þar sem einstaklingurinn í heild er velkominn og fær rými til sjálfsskoðunar. 

Mörg upplifum við okkur ein þegar við stöndum frammi fyrir áskorunum tengdum kynorku og kynlífi - hvort sem þær eru líkamlegar eða andlegar. Það getur verið erfitt að finna rými fyrir opin og jákvæð samskipti um þessa hluti. Í mörg ár þjáðist ég í þögn þar sem ég fór í gegnum ýmsar áskoranir tengdar kynverunni og ég fann fyrir mikilli skömm. Ég vissi ekki hvert ég gæti leitað og vissa varla að ég þyrfti á aðstoð að halda. Að vissu leyti var ég dofin og í afneitun og gat hreinlega ekki viðurkennt fyrir öðrum eða sjálfri mér að ég þyrfti á hjálp að halda. Ég óttaðist að vera dæmd og það magnaði bara þögnina og hélt aftur af mér í að leita mér stuðnings. 

Það kom að því að ég fann þerapista sem mætti mér með róttæku samþykki og heildrænni nálgun og þá hófst heilunarferlið. Ég vann með kynlífsmarkþjálfa, sótti ýmis námskeið og smám saman komst ég í gegnum lög af sársauka og skömm. Ég fann að ég gat leyft mér að finna fyrir og tengja betur við líkama minn, langanir mínar og hver ég væri sem kynvera.

Þessi vegferð hefur vægast sagt umbreytt lífi mínu og það er þar sem ástríða mín fyrir þessu starfi liggur. Það að vinna heildrænt með líkama og huga á þennan hátt skapar tækifæri til þess að efla sjálfsþekkingu og tengjast betur meðfæddri visku og lífskrafti líkamans. Það er mín upplifun og trú að með því að auka færni okkar á innri hlustun, í samskiptum, þekkingu á löngunum og mörkum, innra öryggi og sjálfstrausti getum við skapað auðugra, ánægjulegra og fyllra líf.